Matarboð á seinustu stundu...
...geta verið skemmtileg. Ég og Þóra vorum einmitt að enda við eitt svona, ég hringdi í dag í hana Rögnu og bauð henni og börnunum hennar þremur í mat (Jói er einn af þremur). Matseðillinn var mjög einfaldur, og átti í raun að vera þjóðlegur en þar sem að það fékst ekkert þjóðlegt í Fötex þá var það bara það næstbesta. Ég eldaði Nýsjálenskar lambalundir með kryddhjúp sem mér þykir lostæti og fékk meðal annars 9 í verklegri matreiðslu í MK í vor (nema hvað að ég var með ekta hráefni þá þ.e. Íslenskt). Með þessu var ég með gratíneraðar kartöflur, smjörsteikta sveppi og rjómalagaða sveppasósu og yndælis rauðvín frá Toscana héraði á Ítalíu. Ég verð að segja enn og aftur, eftir að hafa prufað núna bæði nýsjálenskar lambalundir og lambalæri að mér fynnst þetta bara ágætis kjöt, ég veit þó allavegana að ég get fengið lambakjöt sem er svipað og það Íslenska hér í DK. Þetta var ágætis tilbreyting frá kalkún, kjúkling og svíni.
Danir eru samt ekki sammála okkur um ágæti lambakjötsins því að þeim finnst það smakkast eins og úlfur (ég er ekki viss um að ég vilju smakka úlf), en þeir eru mikið hrifnari af svínakjötinu og fuglakjötinu sínu. Þeir eru samt nógu hugrakkir að bjóða upp á hinar ýmsu kjöttegundi sem eru "exótískar" fyrir þeim, þið vitið Íslenskt og Nýsjálenskt lamb, strútsbringur og kengúrukjöt...
...jú og hrossakjöt. Sem að ég sakna mikið að heiman. Ég átti samt ágætis samtal (meira kanski rökræður) á minni bjöguðu, mjöt takmörkuðu dönsku, við bekkjafélaga mína og kennara um ágæti hrossakjöts. Það versta er að danir virðast bara sjá fyrir sér stóra og stæðilega danska/enska dráttaklára eða keppnisgræjur sem eru seigar og örugglega vondar á bragðið, við frá Íslandi þekkjum aftur á móti Íslenska "pónýinn" sem er alltaf svo rólegur og er með fleiri ganga en aðrir hestar (við erum alltaf svo sérstök þjóð). Þetta var helsta vörnin mín um ágæti hrossakjöts en það virtist ganga yfir bekkinn minn almenn velgja þegar ég talaði um "Islandsk hestekød med hvide sovse og kartofler". Jæja kanski að mér gangi betur með hangikjötið eða þorramatinn (yeah right, good luck!!).
Ég var samt að láta mér detta núna í hug að hætta en enda þetta ágæta blogg með því að gefa ykkur þarna úti uppskriftina af lambalundunum.
...Þetta er fyrir svona c.a. 4
Lambalundir með kryddhjúp
• 1,6-2 kg lambafillet, fituhreinsað
KRYDDHJÚPUR
• 1 búnt steinselja
• 1 búnt basil
• 1 búnt timían
• 4 hvítlauksrif
• 1 msk ólífuolía
• parmesan ostur, rifinn
• 1 msk rasp
KRYDDHJÚPUR
• Setjið allt í matvinnsluvél og hrærið þar til það verður smákornótt
• Brúnið kjötið á pönnu á báðum hliðum við háan hita
• Kryddið með salti og pipar og hjúpið með kryddblöndunni
• Setjið það síðan í eldfast mót og steikið í 150°C heitum ofni í 15 mínútur
Það má líka notast við mortel til þess að útbúa kryddhjúpinn og svo má ekki gleyma að skreyta diskinn þannig að allt líti rosa vel út...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli