mánudagur, júní 28, 2004

Svolítið um mat...

Já í þessu fríi mínu hef ég sökt mér niður í kokkabækur og á uppskriftasíður á netinu. Ekki bara til þess að skoða uppskriftir hledur líka til þess að ná mér í fróðleik um ýmsa hluti sem að ég sem komandi matreiðslumaður verð að vita og muna. Þegar ég var á einni síðunni þá mundi ég allt í einu að ég var byrjaður að sanka að mér ýmiskonar fróðleik á heimasíðu sem að ég svo síðar ætlaði að setja á netið. En ekkert hefur gerst í þeim málunum... ennþá. Mér datt svo í hug í dag að sækja allan þennan fróðleik inn á heimasíðuna mína og skella hérna inn á þessa síðu svona mér og öðrum til mikillar skemmtunar og fróðleiks.

Og hérna kemur svo fyrsti fróðleikurinn njótið vel:

Sætuefni:

Sykur er mikilvægt hráefni í bakstri. Ekki er hægt að minnka sykurmagnið mikið í tertum og smákökum án þess að það komi niður á þéttleika þeirra. Í gerdeig er gott að setja smávegis af sykri (2-3 tsk) til þess að flýta fyrir hefingu.

Strásykur...

Strásykur (oftast nefndu sykur í uppskriftum) er algengasta sykurtegundin. Hann er gerður úr sykurrífum eða sykurreir.

Púðursykur...

Púðursykur er öðruvísi en strásykur en í honum er steinefni sem gefa kjarnmeira bragð og sterkari lit.

Flórsykur...

Flórsykur er brotinn molasykur sem síðan hefur verið malaður og sigtaður. Hann gerir smákökur mun þéttari í sér en strásykur og er gjarnan notaður til skrauts.

Perlusykur...

Perlusykur er kornóttur sykur úr brotnum og sigtuðum molasykri. Hann er nánast eingöngu notaður til skrauts.

Síróp...

Síróp hefur um langan aldur verið mikilvægt hráefni í brauðmeti og sérstaklega í matarbrauðum. Það gefur samskonar sætu og sykur. Hægt er að fá nokkrar tegundir af sírópi t.d. ljóst og dökkt. Ljóst síróp hentar best en dökka sírópið gefur sterkara bragð og hentar oft vel í kryddbrauð og -kökur.

Dýfið sírópsdósinni í heitt vatn og þá rennur sírópið auðveldlega úr henni. Einnig er gott að hita sírópið í örbylgjuofni. Oft vill dálítið af sírópi sitja eftir í mæliskeiðinni eða desilítramálinu. Til þess að vera sem nákvæmastur er gott að hita málið undir heitu vatni áður en það er notað.

Hunang...

Hunang er náttúruefni sem notað hefur verið mun lengur og sykur og síróp. Samsetning þess, litur og bragð fer eftir jurtunum sem býflugurnar hafa tekið hunangið úr. Hægt er að nota hunang í stað sykur, sérstaklega í kökur og matarbrauð. Þá er notað minna af hunangi en uppgefið magn af sykri og einnig minni vökvi þar sem hunand er 1/5 vatn.

Það getur verið erfitt að ná hunanginu úr mæliskeiðinni. Gott er að bera matarolíu á hana og rennur þá hunangið auðveldlega. Einnig er gott að hita hunangið í örbylgjuofni á lægsta hita í 1-3 mínútur áður en það er mælt.

Vanillusykur...

Vanillusykur er blanda af mjög fínmöluðum sykri og bragðefninu vanillu. Hvort tveggja er fyrst og fremst notað sem bragðauki.

Glúkósi...

Glúkósi er litarlaus massi, líkur sírópi. Glúkósasíróp kemur í veg fyrir að sykur kristallist og verði kekkjóttur, það er m.a. notað í marsipan.

Sætuefni...

Í mörgum kökum og brauði er auðveldlega hægt að nota gervisætuefni í stað sykurs. Leiðbeiningar varðandi notkun efnanna má yfirleitt finna á umbúðum sætuefnanna og þær geta verið misjafnar eftir framleiðendum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Independent [url=http://www.greatinvoices.com]create an invoice[/url] software, inventory software and billing software to create masterly invoices in one sec while tracking your customers.