fimmtudagur, janúar 13, 2005

Búinn að senda eina umsókn...

Já gærdagurinn var svolítið sérstakur. Hann byrjaði á því að það var dinglað hjá mér og ég beðinn um að kvitta fyrir ábyrgðarbréfi. Allt í lagi með það. Þegar ég opnaði bréfið, sem að var frá Dalum Uddannelses Center, þá voru tvær línur í því og það sagði í stuttu máli að skólinn hafði móttekið afsögn mína úr skólanum. Ekkert meira.
Nú svo á meðan ég var að lesa þessar tvær línur þá ákvað Þóra að fara út í póstkassa til að kanna hvort að það væri eitthvað komið. Jújú, haldiði að það hafi ekki verið tvö önnur bréf frá Dalum Uddannelses Center (skólinn minn). Í öðru bréfinu stóð nákvæmlega það sama og í ábyrgðarbréfinu, skrítið hugsaði ég, en í hinu bréfinu var ábending um veitingastað í Ejby sem að vantar nema. Staðurinn heitir Fjelsted Skov Kro og er svona ekta dönsk krá og matseðillinn eftir því. Dansk flæskesteg, Oksesteg, stegt flæsk med persillesovs og svo framvegis. Fyrst þá leist mér ekkert á þetta dæmi, hélt reyndar að ég myndi ekkert læra og svona en eftir að hafa kynnt mér málið þá líst mér vel á þennan stað og ég held að, ef að ég fæ þessa stöðu, að ég verði góður kokkur eftir dvölina hjá honum Polle, sem er yfirkokkur og eigandi. Staðurinn er með sitt eigið reykhús og bakarí. Þetta er líka gistiheimili/hótel. Þarna vinna eitthvað í kring um 50 manns þannig að þetta er frekar stór "krá" miðað við annarsstaðar í DK. Það skemmir heldur ekki fyrir að þetta er bara í 20 mín. bílferð frá Rasmus Rask Kollegie, sem að ég tel vera mikinn kost. Það ganga rútur þangað mjög reglulega og það tekur ekki nema 30 mínútur að sitja í rútunni og koma sér í vinnuna. Svo er líka hægt að hljóla á sumrin, ef maður er ofur-hress.
En allavegana þá sendi ég umsókn áðan, og takið nú vel eftir, um leið og ég fór að sækja ábyrgðarbréfið sem að, hver haldiði, jú Dalum Uddannelses Center sendi mér. En svo kom í ljós að tilkynningin var send fyrir slysni og það var ekkert bréf. Svona er nú sagan af bréfinu.
En hann Polle sagði við mig þegar að ég hringdi áðan að honum vantaði frá febrúar/mars nema og hann varð svona spenntari að heyra í mér þegar að ég sagði að ég sé búinn að vera nemi í 4 mánuði en varð að hætta vegna þess að þeir lokuðu Restaurant Skoven í Odense. Þannig að ég er temmilega jákvæður með þetta mál allt saman. Allavegana jákvæðari en ég var fyrr í vikunni.

Þetta er það sem er að frétta akkúrat núna, jú og svo er það viðtalið á mánudaginn næstkomandi á Hotel Hesselet í Nyborg.

Góðar stundir

Engin ummæli: