sunnudagur, apríl 08, 2007

Smá...

Ítölsk matargerð hefur löngum þótt heillandi og ekki af ástæðulausu, því að fáar þjóðir leggja meira upp úr ferskleika og einfaldleika eins og Ítalir. Grunnreglan er sú að náttúrulegt bragð á að njóta sín, lamb á að bragðast eins og lamb en ekki að vera drekkt í einhverju kryddi sem stelur öllu upphaflega bragðinu. Máltíð á íÍtölsku heimili er meira en bara stund þar sem fóðrinu er kýlt í sig og hlaupið út, heldur er þetta samverustund allrar fjölskyldunnar þar sem fólk nýtur þess að borða góðan mat og ræða saman. Á íÍtölskum veitingahúsum er matseðillinn gjarnan settur upp á annan hátt en gengur og gerist á öðrum veitingahúsum. Fyrst kemur Antipasti, sem er úrval forrétta sem gjarnan eru blandaðir saman. Í Antipasti er t.d. Parmaskinka, grillað niðurlagt grænmeti eins og paprika, eggaldin, kúrbítur og laukar. Sýrður fiskur, parmesan ostur, kryddlegnir sveppir, túnfiskur, þurrkaðir tómatar að ógleymdu ítalska brauðinu og góðri ólífuolíu til að dýfa í. Þá kemur “Primi” sem inniheldur pastarétti ásamt Risotto, súpum og fleiri réttum, áður en kemur að aðalréttunum þar sem kálfur og fuglakjöt er áberandi. Matreiðslan er mjög einföld og blandar ekki saman mörgum brögðum af mismunandi hráefnum, sósur eru einfaldar og yfirleitt bara soðið af viðkomandi hráefni, meðlætið er oftast 1-2 tegundir af grænmeti. Ítalir eiga mikið af staðbundnum réttum sem einkennast af því hráefni sem er veitt eða ræktað á viðkomandi stað og oft er hægt að segja til um hvaðan rétturinn er með því einu að líta á hvað rétturinn inniheldur. Talsverður munur er á mat frá suður og norðurhluta landsins þar sem norðanmenn laga talsvert þyngri mat heldur en t.d. Sikileyjabúar sem eru þekktir fyrir mjög létta matreiðslu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mjög fræðandi og skemmtilegt, býð bara eftir sð þú komir með pistil um garðvinnu, danirnir voru nefnilega að kvarta yfir garðinum þínum, djók
Vonandi er gleði á Íslandi, sjáumst vonandi sem fyrst.
Elli